Þriðjudagur, 30. október 2007
Atferlismynstur og einkenni meðvirkni
Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er "háð/ur" öðrum einstaklingi/um. Finnst hann/hún vera fastur/föst í sambandi, sem einkennist af misnotkun og stjórnsemi. Þetta eru oft einstaklingar með lélegt sjálfstraust, og sem þurfa stöðugt á stuðningi og viðurkenningu annarra að halda, til að geta liðið vel. Það, sem gerir það að verkum að þessir einstaklingar koma sér ekki út úr eyðileggjandi samböndum, er að þeim finnst þeir hafi enga stjórn á því að breyta aðstæðum sínum, og eiga oft í erfiðleikum með að upplifa náin tengsl og ást. Meðvirkur einstaklingur er stöðugt að þóknast öðrum, þrátt fyrir að vilja það ekki, og treysta á aðra til að segja til um hverjar þarfir þeirra séu, þ.e. meðvirkir einstaklingar þekkja sjaldnast eigin þarfir en eru "hugsanalesarar" þegar kemur að þörfum annarra. Allur kraftur fer í að passa upp á "hamingju annarra" frekar en sína eigin. Meðvirkir einstaklingar kenna sjálfum sér um þegar illa fer, finnst erfitt að vera einir, segja ekki skoðun sína vegna hræðslu um að vera hafnað, ljúga til þess að verja og hylma yfir með þeim sem þeir elska. Meðvirkir einstaklingar finna oft fyrir stöðugum kvíða, án þess að geta tengt það við neitt sérstakt, eiga erfitt með að tengjast öðrum og njóta lífsins, og geta ekki séð að það séu þeir sem þurfa að breyta einhverju til þess að þeim geti liðið betur.
Meðvirkni er hugtak sem mest hefur verið notað í kringum vímuefnamisnotkun. Hér er sá meðvirki maki, ættingi eða góður vinur þess sem misnotar vímuefnin. Sá meðvirki hylmir yfir og leynir hversu slæm neyslan er, tiplar á tánum þegar neytandinn er þunnur, og segir ekkert þó að allur peningur fari í vímuefni í staðinn fyrir mat. Þeim meðvirka finnst hann/hún ekkert geta gert í málunum, og geta ekki komið sér útúr sambandinu. Telur að neytandinn þurfi á sér að halda, og lætur sig dreyma um að hlutirnir muni breytast og batna. Allt lífið snýst um að þóknast neytandanum, og ef um er að ræða maka sem er í neyslu, er mjög algengt að börnin í fjölskyldunni gleymist. Meðvirkni þarf ekki að einskorðast við maka vímuefnaneytenda, t.d. getur hún líka einkennt maka spilafíkils, eða maka annarra þar sem óæskileg og neikvæð hegðun er látin viðgangast lengi, þrátt fyrir að vera stöðugt niðurbrjótandi og valda óhamingju fyrir fjölskyldumeðlimi.
Fólk er oft í vafa um hvort vandamál sem hrjáir það eða þeirra nánustu séu þess eðlis að það geti leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi. Þú spyrð hvort meðvirkni sé nægjanleg ástæða til að leita til sálfræðings. Það er að sjálfsögðu nægjanleg ástæða, því að meðvirkum einstaklingi líður yfirleitt mjög illa, börnin í meðvirkum fjölskyldum þjást, og í raun og veru styður meðvirknin vímuefnaneysluna. Ef, hinsvegar, meðvirkur einstaklingur lærir að þekkja vandann, leitar sér aðstoðar og byggir upp sjálfstraust sitt, þá er hægt að komast út úr þessum vítahring. Það er því í raun mjög mikilvægt að leita sér einhvers konar aðstoðar, því að meðvirkur einstaklingur, sem gerir ekkert nema að yfirgefa maka sinn, á það á hættu að lenda aftur í meðvirku sambandi, því honum líður oft ennþá illa með sjálfan sig, hefur kannski mjög skert sjálfstraust og finnur ekki leiðir til að láta sér líða betur. Hinsvegar getur það verið mjög einstaklingsbundið hverskonar aðstoð hver og einn þarf á að halda og hversu mikla.
Aðstoð er hægt að fá hjá sálfræðingum, t.d. með hugrænni atferlismeðferð og fleiri meðferðarformum. Oft þarf að byggja upp sjálfstæði og sjálfstraust, þekkja hvað er eðlilegt og óeðlilegt í samböndum fólks, og vinna með það "meðvirka" samband sem einstaklingurinn hefur verið í eða er ennþá í. Einnig er hægt er að fá hjálp hjá AA-samtökunum, og ýmsum öðrum stuðningshópum, svo eitthvað sé nefnt.
Björn Harðarson Sálfræðingur
Atferlismynstur og einkenni meðvirkni
Afneitun:
Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annara.
Lítil sjálfsvirðing:
Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
Ég tek álit annara á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.
Undanlátssemi:
Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
Ég met skoðanir og tilfinningar annara meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást.
Stjórnsemi:
Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim á að finnast og hvernig þeim líður í raun og veru.
Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
12 spora vinnan er bara brilliant dæmi en maður verður að hafa Guð með það er allgert must.
Jóhann Helgason, 30.10.2007 kl. 21:53
Takk fyrir þetta Jóhann Ég var einmitt nýbúin að kommentera á Jesus Camp um meðvirknina og svo sá ég meðvirknigreinina þína! Frábær tilviljun
Guðrún Sæmundsdóttir, 30.10.2007 kl. 21:59
En núna máttu búast við því að fá "þagnarmeðferð"
Guðrún Sæmundsdóttir, 30.10.2007 kl. 22:12
Frábært og sko engin tilviljun gott það sem þú varst kommentera á Jesus Camp um meðvirknina svo satt.
Jóhann Helgason, 30.10.2007 kl. 22:23
Guð bless þig Jói minn, þú ert einstakur og góður einstaklingur sem ég met meira en þú gerir þér grein fyrir. Knús dúlli og Guð gefi þér góða nótt, og lækningu meina þinna. ekki gleyma að kíkja á þættina sem ég benti þér á í síðustu færslunni, tengist umræðunni ekki baun, bara flott fyrir grúskara eins og þig.
Linda, 31.10.2007 kl. 00:40
Takk fyrir það Linda
Jóhann Helgason, 31.10.2007 kl. 01:15
tólf sporin geta svo sannarlega gert kraftaverk og það allt fyrir tilstuðlan Jesús. Gott að lesa þetta hjá þér
Sædís Ósk Harðardóttir, 31.10.2007 kl. 13:45
12 sporin eru frábær og þau geta breitt lífi mans algjörlega. Alla veganna gerðu þau það hjá mér.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 10:01
12 sporin breyttu mínu lífi til hins betra. Takk fyrir þetta
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 10:03
Frábært að heyra það Birna Já þau eru æðisleg . og gaman heyra frá þér Líka Sædis . Takk fyrir þetta góða innlegg .
Jóhann Helgason, 2.11.2007 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.